Velkomin á heimasíðuna mína!

Ég heiti Kristjana Steingrímsdóttir en er alltaf kölluð Jana. Ég er menntaður viðskiptafræðingur en ástríða mín liggur í að elda hollan og góðan mat og þá aðallega litskrúðug salöt og góðar dressingar. Ég hef unnið sem heilsukokkur í um 13 ár og þá aðallega í Lúxemborg þar sem við maðurinn minn, Sigþór Júlíusson og stelpurnar okkar þrjár bjuggum í 15 ár.

Í Lúxemborg byrjaði ég að vinna sem hráfæðiskokkur á veitingastað árið 2009 og svo opnuðum við heilsuveitingastaðinn Happ (Sem stendur fyrir Healthy & Pure products) árið 2010 og þar vann ég í um 12 ár. Ásamt því að vera aðalkokkurinn þar ogmeðeigandi var ég mikið með matreiðslunámskeið í heimahúsum fyrir hópa þar sem ég kenndi og eldaði fyrir fólk ásamt því að við spjölluðum og smökkuðum allskyns góðgæti. Síðan við fluttum heim aftur hef ég verið að koma í heimahús og vera með eins matreiðslunámskeið eða heilsu upplifunarkvöld eins og ég er farin að kalla þessi kvöld og endilega hafið samband við mig ef þið viljið meiri upplýsingar um kvöldin með þvi að senda mér póst á jana@jana.is

Ég er menntuð sem heilsumarkþjálfi frá IIN (Institute for Integrative Nutrition) og hef tekið að mér fræðslu og einstaklingsþjálfun. Einnig er ég með 200 tíma jógakennararéttindi, stunda mikið jóga og kenni jóga í Yogavitund í Garðabæ.

Ég elska góðan, hollan og litskrúðugan mat, heilsu, hreyfingu og útivist og finnst fátt skemmtilegra en að vera með vinum og borða góðan mat eða vera út í náttúrunni að hreyfa mig.

Ég gaf út matreiðslubók árið 2018 með yfir 100 hollum uppskriftum og er alltaf að leika mér í eldhúsinu að búa til uppskriftir sem ég ætla mér svo að safna hér inn á þessa vefsíðu svo þið getið prófað líka.