Þorskhnakkar með steinselju- & myntupestó á grænmetisbeði
Ég elska íslenskan fisk og fæ allan minn fisk hjá fiskversluninni Hafinu í Hlíðarsmára 8. Þeir eru reyndar líka með verslun í Spönginni. En Hlíðasmárinn er klárlega mín búð ;). Þar er alveg geggjuð þjónusta og mjög mikið úrval af ferskum fiski og tilbúnum fiskréttum. Mæli svo með að gera sér ferð þangað og prófa það sem þeir bjóða upp á.
800 gr þorskhnakkar
Ólífuolía
Salt
Marókkósk kryddblanda (Kryddhúsið)
Blandað grænmeti (flott að nota það sem til er í ísskápnum)
Í þennan rétt notaði ég :
3 gulrætur
2 tómata
1 rauða papriku, kjarnhreinsaða
1/2 kúrbít
1/2 púrrulauk
Allt grænmeti er skorið í litla bita og sett í botninn á eldföstu móti ásamt 2-3 msk ólífuolíu, salti og marókkóskri kryddblöndu - blandið vel saman
Skerið þorskhnakkana í litla bita og raðið þeim yfir grænmetið, setjið væna msk af pestó á hvern fiskbita
Steinselju- og myntupestó :
2 box af ferskri steinselju
1 box af ferskum myntublöðum (ekki stönglarnir)
3-4 msk chiliristaðar kasjúhnetur
3 steinlausar döðlur
Smá biti af fersku engiferi
1 hvítlauksrif
Salt
Safi úr 1 límónu
Ca 1/2 bolli ólífuolía eða meira ef þið viljið þynnra pestó
Blandið vel saman í blandara, matvinnsluvél eða með töfrasprota.
Setjið fiskinn inn í 180 gráðu heitan ofninn og bakið allt í 20-30 mín, fer eftir þykkt fisksins og stærðinni á grænmetisbitunum.
Dásamlegur fiskréttur sem ég bar fram með t.d. kínóasalati og sítrónuolíu.